Innlent

Öryrkjar kæra auglýsingar með Lalla Johns

Lalli Johns.
Lalli Johns. MYND/EÓ

Öryrkjabandalag Íslands hefur ákveðið að kæra auglýsingar Öryggismiðstöðvar Íslands með Lalla Johns til siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa. Telur Öryrkjabandalagið að Öryggismiðstöðin sé að misnota aðstöðu Lalla og ala á ótta almennings gagnvart heimilislausu fólki.

Í tilkynningu frá lögmanni Öryrkjabandalagsins kemur fram að auglýsingar Öryggismiðstöðvarinnar brjóti gegn almennri velsæmiskennd og þeim grundvallargildum siðareglna auglýsingastofa um virðingu fyrir manneskjunni.

Öryggismiðstöðin hefur undanfarnar vikur rekið auglýsingaherferð í fjölmiðlum. Herferðinni er beint að einstaklingum og fjölskyldum og ætlað að kynna þjónustu fyrirtækisins sem kallast Heimaöryggi. Í auglýsingunum leikur Lalli Johns sjálfan sig undir fyrirsögninni „Hver vaktar þitt heimili." Fékk Lalli 300 þúsund krónur fyrir að taka þátt í auglýsingunum.

Öryrkjabandalagið lítur svo á Öryggismiðstöðin hafi misnotað bagalega aðstöðu Lalla þegar fyrirtækið fékk hann til að leika í auglýsingunum. Erfitt sé fyrir mann í hans aðstöðu að hafna þeim peningum sem honum voru boðnir fyrir þátttökuna. Þá segir lögmaður bandalagsins í tilkynningunni að það sé einsdæmi að maður taki þátt í auglýsingu sem sýni hann sjálfan í neikvæðu ljósi.

Þá telur bandalagið að auglýsingaherferðin ali ekki eingöngu á ótta almennings gagnvart Lalla Johns heldur gagnvart öllu heimilislausu fólki. Margir heimilislausir einstaklingar séu öryrkjar og því telji bandalagið sér skylt að gæta hagsmuna þeirra þegar að þeim er vegið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×