Innlent

Þingmenn Samfylkingar funda með Ingibjörgu Sólrúnu

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er nú að kalla til sín þingmenn flokksins einn af öðrum. Fréttastofa Stöðvar 2 náði tali af Steinunni Valdís Óskarsdóttur, nýjum þingmanni Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóra, þegar hún var að koma af fundi með Ingibjörgu Sólrúnu.

Steinunn Valdís vildi ekkert um það segja hvort stjórnarsáttmáli lægi fyrir. Hún hefði komið á fund með formanninum til þess að fara yfir stöðuna. „Þetta skýrist allt saman fljótlega," sagði Steinunn Valdís.

Aðspurð hvort hún ætti von á því að verða ráðherra í nýrri ríkisstjórn sagði Steinunn Valdís að hún vildi ekkert tjá sig um það. Ítrekaði hún að þetta kæmi allt í ljós.

Steinunn Valdís sagðist aðspurð hafa trú á því að þetta yrði góð ríkisstjórn og hún sagðist ánægð með þau heilindi sem verið hefðu í samskiptum Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í viðræðunum.

Ingibjörg Sólrún hefur hefur frá því klukkan 9 í morgun rætt við einstaka þingmenn Samfylkingarinnar og kynnt fyrir þeim innihald fyrirliggjandi stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Hún ræðir við hvern og einn í um 20 mínútur en þar greinir hún ekki frá því hverjir verði ráðherrar flokksins. Það verður kynnt á þingflokksfundi Samfylkingarinnar klukkan 19 í kvöld á Hótel Sögu en að loknum honum er flokksstjórnarfundur þar sem flokksstjórninni verður kynntur stjórnarsáttmálinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×