Innlent

Ný ríkisstjórn tekur við á morgun

Samkomulag hefur tekist um myndun ríkisstjórnar milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar og er fastlega búist við að ríkisstjórnarskipti verði á Íslandi á morgun. Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar liggur fyrir og formennirnir kynna hann nú þingmönnum sínum.

Stofnanir flokkanna hafa verið boðaðar til funda í kvöld þar sem bera á upp tillögu um ríkisstjórnarþátttöku og ráðherralista. Kristján Már Unnarsson hefur fylgst með gangi mála í morgun.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, byrjaði í morgun að kalla þingmenn flokksins á sinn fund hvern og einn til einkasamtals og mættu þeir hver af öðrum í Ráðherrabústaðinn með tuttugu mínútna fresti. Þannig mun hann kalla til sín hina 24 þingmenn flokksins og standa þessi samtöl fram eftir degi. Talið er að á fundunum geri hann þingmönnum grein fyrir stöðu mála og heyri óskir þeirra og viðhorf til ráðherravals.

Samskonar atburðarás er einnig hafin hjá formanni Samfylkingarinnar og er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að kalla þingmenn sína til einkafunda á skrifstofu sinni á Alþingi. Ekki er gert ráð fyrir að formennirnir hittist á frekari formlegum viðræðufundum í dag.

Stofnanir flokkanna hafa verið boðaðar til funda í kvöld. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hittist í Valhöll klukkan sjö til að fjalla um ríkisstjórnaraðild og í framhaldi af þeim fundi er búist við að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundi þar sem formaður flokksins kynnir tillögu um ráðherraval.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur verið kallaður saman til fundar á Hótel Sögu klukkan sjö og flokksstjórn Samfylkingarinnar hittist svo klukkan átta.

Geir H. Haarde vildi ekki veita viðtal nú fyrir hádegi en í stuttu spjalli vildi hann ekki staðfesta að samkomulag hefði tekist milli flokkanna. Sagði aðeins að ekkert væri öruggt fyrr en það væri öruggt.

Þetta ferli sem nú er hafið er ótvírætt merki þess að samkomulag hafi náðst um stjórnarmyndun. Flokkstofnanir flokkanna munu væntanlega samþykkja ríkisstjórnarþátttöku í kvöld og þá má fastlega búast við að ríkissráðsfundir verði haldnir á morgun og ný ríkisstjórn taki þá við völdum á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×