Innlent

Sýknaður af óspektum vegna breytts tíðaranda

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað karlmann af ákæru um að hafa verið ölvaður og valdið óspektum, hættu og hneykslan á almannafæri á þeim grundvelli að viðhorf til drykkjskapar og óspekta sé allt annað nú en það var þegar lögreglusamþykkt sem snýr að málinu var gerð.

Maðurinn var að skemmta sér í Ingólfskaffi í Ölfusi í fyrrahaust en var vísað út vegna ölvunar. Hann mun svo hafa fallið á andlitið og brotið tönn þannig að hann var alblóðugur í framan. Var honum gefið að sök að hafa skyrpt blóði í allar áttir og haft uppi hótanir um slagsmál ásamt því að neita að greina lögreglu frá nafni sínu og ítrekað neitað að hlýða fyrirmælum dyravarða og síðar lögreglu um að hverfa frá.

Í niðurstöðu dómsins er talið sannað að maðurinn hafi verið ölvaður en bent á að ekki sé refisvert að vera ölvaður á almannafæri. Í Ingólfshöll séu haldnir stórir dansleikir og áfengi haft um hönd og í slíkum tilvikum skapist oft þær aðstæður að lögregla og dyraverðir verði að halda uppi lögum og reglu. Þá megi alltaf búast við því við dansleikjahald að gestir sýni annarlega hegðun og öfgafulla framkomu eftir að hafa neytt áfengis.

 

Enn fremur er vísað til lögreglusamþykktar Árnessýslu og bent á að hún sé 68 ára gömul. Tíðarandinn þegar hún var sett hafi verið allt annar en nú og viðhorf til drykkjuskapar og óspekta allt annað en það er í dag. Fyrir tæpum 70 árum hafi heyrt til undantekninga og var eftir tekið ef menn neyttu áfengis í óhófi.

Taldi dómurinn að ekki væri komin fram full sönnun þess að maðurinn hefði með þeim hótunum og skyrpingum valdið hættu eða hneykslan á almannafæri. „Ljóst er að menn geta búist við óæskilegri hegðan manna þar sem almenn drykkja fer fram og veldur sú hegðun minni hneykslan en hlytist af sömu hegðan t.d. við kirkjuhald eða þar sem ekki er reiknað með drukknu fólki. Að þessu virtu þykir ekki lögfull sönnun fram komin að sú háttsemi sem lýst er í ákæru hafi valdið hættu eða hneykslan á þeim stað og þeirri stundu sem um ræðir," segir í dómnum. Var maðurinn því sýknaður af ákæru um að hafa valdið hættu og hneykslan.

Hann var hins vegar sektaður um 20 þúsund krónur fyrir að neita að gefa lögreglu upp nafn sitt við handtöku og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×