Innlent

Reynt að ná saman um stóru málin

Leiðtogar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eiga enn eftir að ná saman um tvo málaflokka en hlé var gert á stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna klukkan fjögur í dag. Ætla má að leiðtogunum reynist erfiðast að ná saman um stóriðjumál og Evrópumál og að jafnvel verði þeim erfitt að ná lendingu varðandi lándbúnaðinn.

Stjórnarmyndunarviðræðurnar hafa nú staðið yfir í tæpa þrjá sólarhringa. Geir H Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og sá fámenni hópur sem setið hefur fundi með þeim, hafa ekki viljað gefa neitt upp um innihald viðræðnanna.Miðað við stefnu flokkanna má hins vegar leiða líkum að því hvað muni reynast þeim erfiðast.

Í kosningabaráttunni boðaði Samfylkingin frestun stóriðjuframkvæmda og virkjana þeim tengdum um nokkur ár á meðan mörkuðu yrði stefna um nýtingu orku landsins og verndun svæða. Þá færði flokkurinn einnig efnahagsleg rök fyrir þessari stefnu, sem voru þau að nauðsynlegt væri að kæla hagkerfið. Sjálfstæðisflokkurinn boðaði enga slíka stefnu.

Ágreiningur flokkanna í Evrópumálum er öllum augljós. Samfylkingin hefur sýnt aðild að Evrópusambandinu mikinn áhuga og mælt fyrir því að samningsmarkmið Íslendinga yrðu skilgreind. Innan Sjálfstæðisflokksins er hins vegar mikil andstaða við allar þreyfingar í þessa átt og sagði einn heimildarmanna fréttastofunnar sem þekkir vel til innan flokksins, að það væri ávísun á klofning innan Sjálfstæðisflokksins ef ákvæði í þessa átt yrði sett í stjórnarsáttmála.

Það er heldur ekki ólíklegt að forystumönnunum reynist snúið að marka stefnu í landbúnaðarmálum, þar sem Samfylkingin hefur m.a. viljað afnema innflutingshöft eins og vörugjöld og tolla, en Sjálfstæðismenn vilja flestir fara hægar í sakirnar í þeim efnum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×