Innlent

Héraðsverk bauð lægst í Hófaskarðsleið

Héraðsverk á Egilsstöðum áttu lægsta boð í lagningu nýs þrjátíukílómetra langs vegar milli Öxarfjarðar og Þistilsfjarðar um svokallaða Hófaskarðsleið en tilboð voru opnuð í síðustu viku. Héraðsverk bauð 683 milljónir króna, sem var 69,5% af áætluðum verktakakostnaði. Þetta er eitt stærsta útboðsverk Vegagerðarinnar á þessu ári en alls buðu tíu fyrirtæki í verkið. Næstlægsta boð kom frá Klæðningu, upp á 727 milljónir króna, sem var 74 prósent af kostnaðaráætlun, en hæsta boð átti Ístak, upp á 1.067 milljónir króna, 108% af kostnaðaráætlun. Nýi vegurinn leysir af Öxarfjarðarheiði en með honum fá íbúar Raufarhafnar og Þórshafnar greiðari leið til Kópaskers og Húsavíkur. Auk lagningar nýs 30,6 kílómetra langs vegar með bundnu slitlagi á einnig að byggja 28 metra langa steinsteypta brú á Ormarsá. Verkið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. nóvember 2009. Þó skal útlögn klæðingar að fullu lokið 1. ágúst 2009, sem þýðir að unnt verður að hleypa umferð á veginn eftir rétt rúm tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×