Innlent

Hræðilegt slys

Banaslysið í fjörunni við Vík í Mýrdal var slys sem ekki er hægt að draga menn til ábyrgðar fyrir að sögn Einars Bárðarsonar, formanns björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal. Aldan sem hreif konuna á haf út var mjög stór og kröpp.

Slysið átti sér stað síðdegis í gær við Reynisfjall við Vík Í Mýrdal. Konan sem lést var sjötíu og fjögurra ára og var á ferð í fjörunni ásamt hópi bandarískra ferðamanna. Litlu munaði að aldan tæki dóttur konunnar einnig með á haf út en dóttirin rétt náði að koma sér undan. Einar Bárarson, formaður björgunarsveitarinnr Víkverja í Vík í Mýrdal segir að fólki sé mjög brugðið við slysið. Sjólagið í gær hafi verið mjög sérstakt og öldugangur þungur. Hann segir að ekki sé hægt að draga neinn til ábyrgðar fyrir slysið, fólkið hafi verið varað við ölduganginum en fjaran þarna er um 3-400 metrar. Einar segir að menn úr hópnum hafi reynt að fara á eftir konunni út en þurft að snúa við.

Einar segir ekkert óeðlilegt við það að engin aðvörunarskilti séu á staðnum enda ætti öllum að vera ljóst að hafið geti verið hættulegt. Hins vegar hafi björgunarsveitin tekið ákvörðun um það í síðustu viku að setja upp lítið aðvörunarskilti og björgunarhring í fjörunni eftir ábendingar um að slíkt sé að finna við Ölfussá og við hafnir landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×