Innlent

Saka lækna um mistök við meðferð brunasára

Foreldrar rúmlega tvítugrar stúlku hafa kært starfsfólk bruna- og lýtalækningadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss til lögreglu. Þau segja að mistök, við meðferð brunasára stúlkunnar, hafi valdið henni varanlegum skaða.

Stúlkan sem er andlega fötluð, brenndist illa á andliti og höndum þegar hún fékk yfir sig heitt vatn á heimili sínu í nóvember 2005. Hún var lögð inn á lýta- og brunadeild Landspítala-háskólasjúkrahús með annars stigs bruna.

Foreldrar stúlkunnar segja að í fyrstu hafi læknar sagt að stúlkan myndi ná sér að fullu. Ellefu dögum eftir að stúlkan var lögð inn á spítala voru settar grisjur á andlit hennar. Foreldrar segja það hafa verið mistök sem orðið hafi til þess að stúlkan er nú með hörð augnlok og þarf að gangast undir fjölda lýtaaðgerða.

Forsvarsmenn spítalans neituðu að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en rannsókn stendur yfir hjá lögreglu. Nánar verður fjallað stúlkuna í Kompási í kvöld, strax að loknum fréttum. Þar verður meðal annars talað við danskan brunasérfræðing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×