Innlent

Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar góð fyrir efnahagslífið

Greining Glitnis telur að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni reynast fjármálamörkuðum nokkuð hagfelld. Slík stjórn myndi trúlega halda áfram þeirri þróun til markaðs- og alþjóðavæðingar sem einkennt hafi íslenskt efnahagslíf frá upphafi tíunda áratugarins.

Greining Glitnis telur að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sé ólíkleg til að hækka skatta á fyrirtæki eða fjármagnstekjur, eða þrengja almennt að atvinnulífinu með stífara regluverki. Báðir flokkar hafi auk þess haft uppi hugmyndir um aukinn einkarekstur og einkavæðingu.

Fjármálasérfræðingar Glitnis segja að fróðlegt verði að fylgjast með hvort ráðist verði í umfangsmiklar breytingar á landbúnaðarkerfinu en innan beggja flokka sé áhugi á slíkum breytingum. Einnig séu líkur til að frekari breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs, þar sem Framsóknarmenn hafi ráðið miklu undanfarin 12 ár.

Glitnismenn telja þó að ólík stefna flokkanna í Evrópumálum geti valdið óvissu. Samfylkingin hafi oftsinnis lýst áhuga á að hefja viðræður við Evrópusambandið um fulla aðild og upptöku evru en Sjálfstæðisflokkurinn verið því andvígur. Raunar megi telja ólíklegt að stór skref yrðu stigi í átt til Evrópusambandsaðildar á næstu misserum og því kunni flokkarnir að ná sátt um að flýta sér hægt í þeim efnum.

Í heild ætti þó myndun hinnar nýju stjórnar að hafa róandi áhrif á markaði, þar sem einhverjir markaðsaðilar hafi verið smeykir um að fram gæti komið stjórnarmynstur sem reynast myndi fjármálamörkuðum óþægur ljár í þúfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×