Innlent

Morgunblaðið fer rangt með hugtök, segir Modernus

Vefmælingarfyrirtækið Modernus, í samráði við Viðskiptaráð Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Morgunblaðið hafi farið rangt með hugtök sem notuð séu hjá Modernus í auglýsingu frá mbl.is.

Þar segir að í auglýsingingunni sé því haldið fram að þrefalt fleiri velji mbl.is en visir.is og vitnað í Samræmda vefmælingu. Þetta sé rangt því fjöldi innlita eða heimsókna sé notaður eins og um fjölda notenda sé að ræða. Hið rétta sé að í kosningavikunni mældust 271.963 nota mbl.is og 237.817 visir.is. „Og reikni nú hver fyrir sig," segir í tilkynningunni.

Bent er á að tölurnar í auglýsingu Morgunblaðsins gildi aðeins fyrir vefhlutann "Forsíða" á hvorum vef fyrir sig og sýna hversu oft lesendur vefjanna lásu forsíðuna eingöngu. Rétt hefði verið að segja að forsíða mbl.is hefði verið þrefalt oftar lesin en forsíða visir.is í kosningavikunni.

„Modernus og Viðskiptaráð hvetja hagsmunaaðila til þess að lesa frumgögnin um vinsældir vefmiðlanna, eða biðja um að fá þau send. Þau má alltaf nálgast á modernus.is undir íslenska listanum vinstra megin á forsíðu vefjarins," segir að endingu í tilkynningunni frá Modernus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×