Innlent

Velferðarsjóður barna styður líberísk börn til mennta

Velferðarsjóður barna styður starf ABC barnahjálpar í Líberíu um 18 milljónir króna á næstu þremur árum samkvæmt samningi sem undirritaður var í morgun. Þetta er stærsti einstaki styrkur sem ABC barnahjálp hefur hlotið en fjármunirnir fara í uppbyggingu skólastarfs í landinu.

ABC barnahjálp hóf starf í Líberíu um síðustu áramót og var þá keypt stórt land sem utanríkisráðuneyti Íslands kostaði. ABC barnahjálp tryggði sér svo viðbótarland og hefur nú samtals um 33 hektara lands og hyggst byggja upp aðstöðu til að hjálpa þúsundum munaðarlausra barna til mennta. Með framlagi Velferðarsjóðs barna verða byggðar þrjár byggingar, heimavist fyrir stúlkur, heimavist fyrir drengi og skólabygging. Gert er ráð fyrir að á hverri heimavist dvelji allt að 200 börn að jafnaði.

Fram kemur í tilkynningu frá ABC barnahjálp að um 200 þúsund munaðarlaus börn séu í Líberíu, þar af er talið að um 150 þúsund börn hafi orðið munaðarlaus í borgarastyrjöldinni sem geysaði í landinu í ein 14 ár. Á þeim tíma lá nánast allt skólastarf niðri og lætur því nærri að heil kynslóð hafi orðið af skólagöngu.

Hlutfall læsra í landinu er aðeins um 20 prósent og því mikið verk óunnið í þessum efnum. Friður komst á árið 2003 og er nú uppbygging í gangi í landinu undir stjórn Ellenar Johnson Sirleaf, fyrsta kvenforseta Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×