Innlent

Útgerðarfyrirtæki vísar ásökunum á bug

MYND/Getty

Vísir hf. í Grindavík vísar á bug ásökunum sem fram komu í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi. Í fréttinni var sagt frá því að fyrirtækið hafi landað þorski og gefið upp sem ufsa. Í yfirlýsingu sem borist hefur fyrirtækinu er þessu vísað alfarið á bug.

„Í fréttinni er fyrirtækið sakað um að hafa landað þúsund tonnum af þorski og gefið upp sem ufsa. Þetta er alrangt," segir í yfirlýsingunni. „Fiskistofa gerði í lok ársins 1995 úttekt á lönduðum afla áranna 1994 og 1995. Ekkert óeðlilegt kom fram við þá rannsókn. Þess ber að geta að SÍF sá um alla sölu fyrirtækisins á þessum tíma."

„Við mótmælum harðlega ásökunum Ólafs R. Sigurðssonar, fyrrum félaga,

starfsmanns og sameiganda í útgerð hjá Vísi hf., og vísum þeim á bug.

Óskiljanlegt er hvað honum gengur til," segir ennfremur. „Þess ber að geta að Ólafur seldi sinn hlut í félaginu um það leyti er kvótakerfinu var komið á. Hann hefur alla tíð tengst aðaleiganda fyrirtækisins vinaböndum, þar sem þeir störfuðu saman í 25 ár og bar engan skugga á. Við hörmum þessa framkomu hans."

Forsvarsmenn fyrirtækisins gera einnig athugasemdir við fréttaflutning Stöðvar 2 af málinu og benda á að þeim hafi aðeins gefist klukkutími til andsvara, þeim hafi ekki verið sagt hver bæri ásökunina fram né hvert umfang hennar væri. Þeir segja fyrirtækið borið þungum sökum án þess að það hafi verið stutt rökum eða sönnunum og segja þeir því fréttaflutninginn ámælisverðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×