Innlent

Búinn með meira en helming af auglýsingafé sínu

Framsóknarflokkurinn er búinn að eyða meira en helming af því auglýsingafé sem flokkarnir náðu samkomulagi um. Aðeins Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin höfðu auglýst í sjónvarpi þegar auglýsingakostnaður flokkanna var tekinn saman í vikunni.

Stjórnmálaflokkarnir sömdu um það í aðdraganda kosninganna að takmarka auglýsingakostnað hvers flokks í fjölmiðlum á landsvísu við 28 milljónir króna og sér Capacent Gallup um að taka saman kostnaðinn saman.

Ný úttekt sem tekur til tímabilsins 27. mars til og með a2. maí sýnir að Framsóknarflokkurinn hefur eytt mestu í auglýsingar af flokkunum fimm sem eiga sæta á þingi. Flokkurinn hefur eytt yfir helming af auglýsingafé flokksins eða tæplega 54% og ljóst að flokkurinn hefur úr minnstu að moða síðustu vikuna fyrir kosningarnar. Alls hefur Framsóknarflokkurinn eytt 15 milljónum króna í auglýsingar, Samfylkingin 11,7 milljónum, Vinstrihreyfingin - grænt framboð 9,4 milljónum, Frjálslyndi flokkurinn 8,7 milljónum og Sjálfstæðisflokkurinn 6,6 milljónum.

Alls hafa flokkarnir allir saman eytt rúmlega fimmtíu og einni milljón króna í auglýsingar. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin eru einu flokkarnir sem auglýst hafa í sjónvarpi sem skýrir að hluta til háan auglýsingakostnað þeirra.

Þar sem samkomulagið tekur aðeins til auglýsinga á landsvísu getur auglýsingakostnaður flokka orðið hærri en 28 milljónir, því hvorki kostnaður við gerð auglýsinga né birtingu þeirra í svæðisbundnum fjölmiðlum er innifalinn í samkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×