Innlent

Norskar herþotur í Keflavík

MYND/TJ

Fjallað er ítarlega um væntanlegt varnar- og öryggissamstarf Íslands og Noregs í norska dagblaðinu Aftenposten í dag. Þar kemur fram að það verði meðal annars í verkahring norska flughersins að sjá um eftirlit í lofthelgi Ísland á friðartímum. Að mati greinarhöfundar eru Norðmenn þannig að koma Íslendingum til hjálpar svo þeir geti viðhaldið sjálfstæði sínu.

Í grein Aftenposten er sagt að allt frá því að Bandaríkjamenn lokuðu herstöðinni á Miðnesheiði hafi ísland verið varnarlaust. Þetta sé ástæða þess að Íslendingar hafi leitað til Norðmanna og Dana um samstarf.

Þá segir ennfremur í greininni að samkvæmt fyrirhuguðu varnar- og öryggissamstarfi landanna muni norskar herþotur sjá um eftirlit í lofthelgi Íslands á friðartímum. Þoturnar muni gera út frá Keflavík en í þessu felist þó engin skuldbinding af hálfu Noregs ef til ófriðar kemur. Þá sé jafnvel hægt að ímynda sér að norski herinn muni auknum mæli taka þátt í heræfingum hér á landi í samstarfi við aðrar þjóðir.

Greinarhöfundur segir að með þessu framlagi sé Noregur að hjálpa Íslendingum að viðhalda sjálfstæði sínu.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, undirrita samkomulagið í Osló á fimmtudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×