Innlent

Lýsi hlaut útflutningsverðlaun forseta Íslands

Lýsi hlaut í dag útflutningsverðlaun forseta Ísland sem afhent voru við hátíðlega athöfn að Bessastöðum. Það var Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

Þetta er í nítjánda sinn sem verðlaunin eru veitt en þau hlýtur einstaklingur eða fyrirtæki fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar.

Fram kemur í umsögn úthlutunarnefndar verðlaunanna að Lýsi fái verðlaunin fyrir þann einstaka árangur sem fyrirtækið hafi náð í sölu- og markaðsmálum á afurðum úr lýsi og fyrir þá framsýni sem fyrirtækið hafi sýnt í vöruþróun og eflingu þekkingar og færni á sínu sviði.

„Fyrirtækið er góður fulltrúi fyrir þann vaxandi fjölda íslenskra fyrirtækja, sem haslar sér nú völl á alþjóðlegum neytendamarkaði með vörur og þjónustu er tengjast heilsueflingu og heilbrigðum lífsháttum," sagði Valur Valsson, formaður úthlutunarnefndar, í ræðu sinni á Bessastöðum í dag.

Enn fremur kom fram í máli Vals að vörur frá Lýsi séu nú seldar í 67 löndum og að almennt sé gert ráð fyrir 5-10 prósenta vexti á ári á öllum helstu mörkuðum fyrirtækisins næstu fimm árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×