Innlent

Farþegum hefur fjölgað um 150 prósent

Farþegum sem fara um Egilsstaðaflugvöll hefur fjölgað um 150 prósent á undanförnum fjórum árum. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hefur fjölgunin verið 17 prósent. Hafnar eru framkvæmdir við stækkun flugstöðvarinnar á flugvellinum.

Á síðasta ári fóru 151 þúsund farþegar um Egilsstaðaflugvöll og nálagst umferðin um hann óðfluga fjölda farþega á Akureyrarflugvelli. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs fóru fimm þúsund fleiri farþegar um flugvöllin en fyrstu þrjá mánuði í fyrra, sem er 17 prósenta aukning.

"Já, hún hefur farið mjög vaxandi síðasliðin ári, síðan 2002, vaxið um 150 % á fjórum árum," segir Ársæll Þorsteinsson flugvallarstjóri.

Þetta er tvímælalaust mesti vöxtur í innanlandsflugi á Íslandi og þá hefur utanlands umferðin aukist mikið líka.En hún hóf að aukast árið 2005 en þá varð veruleg aukning, þegar farþegum í millilandaflugi fjölgaði úr 1.500 í 15.100. En í fyrra voru millilandafarþegarnir 19 þúsund og munar þar mest um Pólverja sem vinna við Kárhnjúka og við uppbyggingu Fjarðaáls á Reyðarfirði, sem flogið er með einu sinni í viku milli Egilsstaða og Varsjár. Egilsstaðir eru því þriðji annasamasti millilandaflugvöllurinn í landinu á eftir Keflavík og Reykjavík. Öll þessi aukna umferð kallar á breytingar á flugvellinum.

"Nú erum við farnir af stað með stækkun flugstöðvarinnar, 450 ferm, fyrir komufarþega, sem mun bæta stöðu okkar verulega frá því sem nú er," segir Ársæll.

Þetta er rúmlega 40 prósenta stækkun á flugstöðinni og einnig stendur til að lengja flugbrautina en unnið er að tillögum þar að lútandi. Ársæll segir að einnig þurfi að stækka flughlaðið, enda rúmi það ekki með góðu móti stórar þotur.

Það kemur fyrir að áætlunarflugvélar í millilandaflugi geti ekki lent á Keflavíkurflugvelli og lendi á Egilsstaðaflugvelli. Þá er ekki ólíklegt að reglulegt flug stærri flugvéla verði til Egilsstaða í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×