Innlent

Hægt að gera við Muuga en ekki hér á landi

Allar líkur eru á því að það sé hægt að koma Wilson Muuga í lag aftur. Ekki er til slippur hér á landi sem er nógu stór til þess og því þarf að draga skipið til Suður-Evrópu. Skipið náðist á flot í gær en þá höfðu tíu til tólf menn unnið nótt sem nýtan dag í sautján daga við að koma því í sjóhæft ástand.

Óhætt er að segja að það hafi gengið lyglilega vel að koma Wilson Muuga á flot aftur en skipið strandaði í Hvalsnesfjöru við Sandgerði þann 19. desember og hafði því velkst í fjöruborðinu í fjóra mánuði. Skipið tókst á flot rúmlega sex í gærkvöldi og var dregið til hafnar í Hafnarfirði. Þangað var komið rétt um ellefu í gærkvöldi.

Guðmundur Ásgeirsson stjórnarformaður Nesskipa segir að menn hafi lagt nótt við dag við að koma skipinu í nægilega gott ástand til að draga mætti það á flot. Hann segir menn frá Árna Kópssyni og Navis hafa sýnt mikinn dugnað við að koma skipinu í það ástand sem til þurfti.

Ekki er til nægilega stór slippur hér á landi fyrir Wilson Muuga og segir Guðmundur að hann og hans félag muni líklega ekki ráðast í endurbætur á skipinu, til þess sé hann orðinn þrjátíu árum of gamll. Það þarf að draga skipið til Suður-Evrópu þar sem hægt er að fá ódýrar viðgerðir á stáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×