Innlent

Þungamiðja búsetu færist um 44 metra á milli ára

MYND/Vilhelm

Þungamiðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu er nú í bakgarði við Goðaland 5 í Fossvogi samkvæmt útreikningum framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar. Þyngdarpunkturinn, sem er reiknað meðaltal búsetu allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu, hefur frá því mælingar hófust verið í Fossvogshverfi en verið á siglingu austur eftir hverfinu.

Hefur þyngdarpunkturinn færst um 44 metra til austurs frá því í fyrra, frá Goðalandi 11 til Goðalands 5 og er það verulega minni hreyfing en árið á undan eftir því sem segir í tilkynningu frá framkvæmdasviði.

Hreyfingar þyngdarpunktsins eru reiknaðar á á grundvelli kortagrunns Landupplýsingakerfis Reykjavíkur (LUKR) og heimilisfangasafns Samsýnar ehf, sem hefur að geyma staðsetningar heimilisfanga allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu í hnitum og er stöðugt uppfærð með nýjustu upplýsingum úr Þjóðskrá og LUKR. Höfuðborgarsvæðið nær yfir öll sveitarfélög frá og með Kjós til og með Hafnarfjarðar.

Þegar aðeins er horft til þungamiðju Reykjavíkur hefur hún færst um 58 metra norðaustur eftir byggingum Menntaskólans við Sund og Vogaskóla. Þá er bilið milli þungamiðjanna 1560 metrar en það var í fyrra 1530 metrar þannig að segja má að Reykjavík leiti aðeins meira til norðurs en byggðin á öllu höfuðborgarsvæðinu gerir.

Skýringar á því að þessar tvær þungamiðjur færast í austur eru ýmsar. Má þar nefna gríðarlega uppbyggingu á austursvæðum Reykjavíkur og í Mosfellsbæ, á þéttingarsvæðum í norðanverðri Reykjavík, í Vatnsendalandi, í miðju Garðabæjar og á svæðum syðst í Hafnarfirði. Mikil uppbygging í Vatnsmýri, við Örfirisey og Mýrargötu gæti að sjálfsögðu breytt þessari heildarmynd verulega, segir í tilkynningu framkvæmdasviðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×