Innlent

Baugur vex hraðast af smásölufyrirtækjum í heiminum

MYND/365

Baugur Group er í 51. sæti yfir 250 stærstu smásölufyrirtæki í heiminum samkvæmt samantekt Deloitte Touche og Stores, tímariti bandarísku samtaka smásölufyrirtækjanna NRF.

Fram kemur í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu að velta Baugs árið 2005 hafi verið rúmir 12,6 milljarðar bandaríkjadala og að fyrirtækið hafi vaxið hraðast af öllum smásölufyrirtækjum á listanum á árunum 2000-2005. Árlegur vöxtur Baugs nam 106 prósentum á tímabilinu en til samanburðar var áregur vöxtur þeirra 50 fyrirtækja sem hraðast uxu um 25 prósent að meðaltali.

Í efsta sæti yfir stærstu smásölufyrirtæki í heimi er sem fyrr bandaríski smásölurisinn Wal-Mart og franska fyrirtækið Carrefour S.A. er í öðru sæti. Þó er velta þess árið 2005 þrisvar sinni minni en velta Wal-Mart.

Bent er á í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu að yfirtökur hafi aukið veltu margra af þeim fyrirtækjum sem uxu hraðast, þar á meðal Baugs en þó vegi þyngst að þau skilji lykilneytendamarkaði og lagi starfsemi sína að þörfum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×