Innlent

Páskahelgin sífellt stærri ferðahelgi

Páskahelgin verður sífellt stærri ferðahelgi meðal Íslendinga. Mikill straumur fólks lá á Akureyri um helgina og býst lögreglan þar við mikilli umferð út úr bænum í dag. Margir skelltu sér á skíði á Akureyri um helgina en fjölmennt hefur verið í Hlíðarfjalli síðustu daga.

Þrátt fyrir fjölda fólks fór skemmtanahald í bænum vel fram. Lögreglu bárust tilkynningar um nokkur slagsmál í miðbæ Akureyrar í nótt en aðeins reyndist um minniháttar pústra að ræða.

Umferð í bæinn var nokkuð þung fyrir helgina og býst lögreglan við mikilli umferð í kringum bæinn í dag. Einar Magnús Magnússon, talsmaður Umferðarstofu, segir páskahelgina sífellt verða stærri ferðahelgi meðal Íslendinga. Veðráttan geri það þó að verkum að hún nær ekki að verða jafnvinsæl ferðahelgi og Verslunarmannahelgin sem talist hefur stærsta ferðahelgi ársins. Ferðahelgunum hafi líkað fjölgað.

Nóttin var með rólegra mótinu í höfuðborginni í nótt. Rúmlega þrítugur karlmaður var sviptur ökuréttindum eftir hafa verið stöðvaður á hundrað og sextíu kílómetra hraða á Reykjanesbrautinni. Maðurinn var að aka framhjá verslun IKEA en hámarkshraði þar er fimmtíu kílómetrar vegna framkvæmda sem þar standa yfir. Hann var sviptur ökuréttindum á staðnum og fluttur til skýrslutöku á lögreglustöðina í Kópavogi. Að henni lokinni hélt hann á brott fótgangandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×