Innlent

Bandarísk sendinefnd um orkumál væntanleg til landsins

Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákveðið að senda sendinefnd til Íslands í sumar, til að kynna sér nýtingu Íslendinga á jarðvarma til orkuframleiðslu. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands greindi frá þessu í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag.

Forsetinn er nýkominn úr nokkurra daga ferð til Bandaríkjanna, þar sem hann átti fundi með leiðtogum meirihluta bæði fulltrúa- og öldungadeildar Bandaríkjaþings, sem og aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna. Forsetinn segir Íslendinga vera algera forystuþjóð í heiminum í nýtingu jarðvarma og það sé ánægjulegt að Íslendingar geti átt veigamikinn þátt í að breyta orkunýtingu Bandaríkjamanna og annarra þjóða.

Mikinn jarðhita er að finna á fjölmörgum stöðum í Bandaríkjunum en hann er sama sem ekkert nýttur. Að sögn Ólafs Ragnars er um veigamikla stefnubreytingu að ræða hjá bandarískum stjórnvöldum. Forsetinn heimsótti einnig fjóra virtustu háskóla Bandaríkjanna til að efla og koma á samstarfi þeirra við íslenska vísindamenn.

Forsetinn segir að með því að tengja vísindasamfélagið, bankana og viðskiptalífið hér og koma á samvinnu megi flytja út þekkingu og hugvit þjóðarinnar og skapa meiri tekjur en af allri útrás bankanna.

Um sjötíu þjóðir í heiminum búa yfir jarðvarma, en hafa ekki sömu þekkingu og Íslendingar í nýtingu hennar og rekstri orkuvera þeim tengdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×