Innlent

Karlmaður í haldi vegna elds við Kríuhóla

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í tíu útköll á síðasta einum og hálfum sólarhring. Tveir menn brenndust á andliti og höndum í nótt þegar kviknaði í bíl sem þeir voru í. Þá kom eldur upp í íbúð við Kríuhóla í dag og við Seljaveg í gærkvöldi.

Slökkviliðið var kallað út vegna elds í íbúð á sjöttu við Kríuhóla um kaffileitið í dag. Talið er að það hafi kviknað í út frá lampa sem notaður er við kannabisræktun. Í íbúðinni fannst lítilræði af kannabisplöntum og er einn maður í haldi lögreglu vegna málsins. Mikill erill hefur verið hjá slökkviliðinu síðasta sólarhring en það var kallað út tíu sinnum.

Þá kviknaði í íbúð við Seljaveg í gærkvöldi en engin slys urðu á fólki. Í upphafi slökkvistarfs var slökkvilið fáliðað þar sem þrír bílar þeirra voru uppteknir í útkalli vegna sinuelda í Hafnarfirði. Fljótlega komu þó fleiri bílar á staðinn og vel gekk að ráða niðurlögum eldsins.

Síðar um nóttina brenndust tveir menn á höndum og andliti þegar eldur kom upp í bíl sem þeir voru í. Mennirnir sem eru ungir að árum höfðu lagt bílnum við flugvallarveg þar sem þeir tóku sig til við að sniffa kveikjaragas. Eitthvað hefur víman sú ekki dugað til því að því loknu kveiktu þeir sér í sígarettu. Við það blossaði mikill eldur í bílnum og mennirnir komust út við illan leik. Mennirnir voru fluttir á slysadeild og að sögn lögreglu voru þeir með fyrsta og annan stigs bruna á andliti og höndum.

Flest brunaútköllin síðasta einn og hálfan sólarhring voru vegna sinubruna. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu er það mildi að bruninn við Seljaveg í gærkvöldi var ekki stærri og áhyggjuefni að slökkviliðið sé æ oftar upptekið við að klappa þúfum. Hann segir fólk verða að gera sér grein fyrir hættunni sem verið að sé að bjóða heim með þessum alvarlega leik sem sinubruni er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×