Innlent

Hugvit og tækniþekking helsta framlagið gegn loftsslagsvandanum

Umhverfisráðherra segir íslenska stóriðju ekki stærsta umhverfisvandamálið í heiminum, heldur notkun jarðeldsneytis. Ráðherrann segir hugvit og tækniþekkingu stærsta framlag Íslendinga til að sporna gegn loftsslagsbreytingum og draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda.



Í gær var greint frá niðurstöðum nýrrar skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem kom fram að meira en níutíu prósent líkur væru á á að hlýnun andrúmslofts, væri af manna völdum. Í skýrslunni segir að ef ekki verði gripið í taumana fljótt eigi yfirborð sjávar eftir að hækka á næstu áratugum og meira en milljarður manna gæti átt við viðvarandi skort á drykkjarvatni. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra segir fulla ástæðu til að taka skýrsluna alvarlega og segir okkar framlag mikilvægt.

Jónína segir samgöngur, iðnaðinn, stóriðju þar á meðal og fiskveiðiflotann losa mest af gróðurhúsalofttegundum hér á landi. Stærsti vandinn út í heimi sé notkun jarðefnaeldsneytis sem sé lítið notað á Íslandi.

„Það er rangt að halda að íslensk stóriðja, þessi fáeinu stóriðjuver sem við erum með hér á landi sé upphafið og endirinn að loftsslagsvandanum. Endurnýjanleg orka sem okkar stóriðja notar er ákveðið framlag til hnattræns loftsslagsvanda. Við skulum bara líta á þá staðreynd að mörg stóriðjuver í heiminum og langstærsti hluti þeirra brennir jarðefnaeldsneyti. Þetta er stóri munurinn á okkar stóriðju og annarri," segir Jónína.



Jónína segir stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar í loftsslagsmálum til ársins 2050 miða við að losun gróðurhúsalofttegunda minnki um 50 til 75 % í öllum geirum atvinnulífsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×