Innlent

Spiluðu bingó á Austurvelli

Eftir klukkan þrjú í dag mátti fólk fara á listsýningar, í leikhús eða í bíó. Það mátti hins vegar ekki fara á ball né spila bingó. Það eru þó ekki allir sem er tilbúnir til að fara að lögum.

Páskahátíðin er heilagasta hátíð kristinna manna en þá minnast þeir krossfestingu Krists og upprisu. Í lögum um helgidagafrið frá árinu 1997 segir að óheimilt sé að að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar. Samkvæmt lögunum er bannað að halda skemmtanir eins og dansleiki á opinberum stöðum, opinberar sýningar sem og happdrætti, bingó og aðra skipulagða spilamennsku. List- og leikhússýningar eru undanþegnar banninu og það sama má segja um kvikmyndasýningar og tónleikahald. Þá mega smærri verslanir og veitingastaðir vera opnir. Lögunum er ætlað að tryggja frið til bænahalds. En það eru ekki allir sem eru tilbúnir til að fara að þessum lögum.

Vefritið Vantrú stóð fyrir bingói á Austurvelli klukkan tvö í dag í blíðskaparveðri. Með uppátækinu vilja aðstandendur vefritsins sýna að ekki sé farið að lögunum og að þau séu í raun fáránleg að sögn Matthíasar Ásgeirssonar ritstjóra.

Lögregla hefur ekki þurft að hafa mikil afskipti vegna brota á lögum um helgidagafrið. Hún sá ekki ástæðu til að stöðva bingóið á Austurvelli i dag en stöðvaði hins vegar dansleik á skemmtistaðnum Nasa í gærkvöldi.

Það var ekki að sjá að bingóspilið hafi truflað gesti dómkirkjunnar sem þangað voru mættir til að hlýða á guðs orð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×