Innlent

Óánægja með starfsemi Forma

Mikil óánægja er meðal aðstandenda átröskunarsjúklinga með starfssemi Forma, samtaka átröskunarsjúklinga og hefur verið leitað til Landlæknis með umkvartanir. Mörgum þykir Forma ganga full langt í baráttunni.

Óánægjan hefur kraumað í nokkurn tíma en aðstandur hafa meðal annars gert athugasemdir við ráðgjafaþjónustu Forma. Heimildarmenn fréttastofu innan Spegilsins, félags aðstandenda átröskunarsjúklinga segja að forsvarsmenn Forma hafi á sínum tíma hafnað samstarfi við Spegilinn en séu nú að stökkva til og eigna sér heiður sem áralöng barátta Spegilsins hefur skilað. Er þar verið að vísa til þess að fyrir skemmstu var sett á laggirnar dagdeild fyrir átröskunarsjúklinga en fulltrúar Spegilsins sátu í nefnd Landlæknis sem vann að því að koma deildinni á koppinn. Mörgum hafi því þótt súrt í broti þegar Forma lýsti því yfir að illa væri staðið að málum átröskunarsjúklinga á Íslandi. Á mánudag mótmælti Landlæknir þessum ummælum Forma og sagði enga biðlista vera lengur á geðdeildum. Í kjölfarið sendi Forma frá sér yfrilýsingu þar sem samtökin segja að þau líti á það sem gríðarlegan sigur í baráttu sinni undanfarin tvö ár að búið sé að útrýma biðlistunum. Þetta þykir mörgum félagsmönnum Spegilsins sárt enda sé heiðurinn frekar þeirra en Forma.

Þá segja þeir félagsmenn Spegilsins sem fréttastofa ræddi við að þeir hafi áhyggjur af því að starfssemi Forma sé ekki fagleg enda starfi samtökin ekki með heilbrigðisyfirvöldum. Matthías Halldórsson, landlæknir staðfesti í samtali við fréttastofu að kvartanir hafi borist embættinu. Hann sagði að hann hefði þegar farið yfir málið með stjórn Forma og vonast til að í framtíðinni muni allir geta unnið saman að málaflokknum enda málið viðkvæmt.

Alma Geirdal segist hafa heyrt af óánægju Spegilsins. Hún segir ekki rétt að Forma hafi eignað sér heiður af vinnu Spegilsins heldur hafi Forma með yfirlýsingu sinni viljað benda á að baráttunni sé hvergi nærri lokið. Hún segir aðalatriðið að hjálpa sjúklingum og að rangt sé með farið að engir biðlistar séu á geðdeildum. Hið rétta sé að staða átröskunarsjúklinga á Íslandi sé slæm eins og Forma hefur ítrekað bent á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×