Innlent

Tilkynningum vegna barnshafandi kvenna fjölgar

Tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur vegna barnshafandi kvenna nær fjórfölduðust í fyrra frá því árið á undan. Framkvæmdastjóri Barnaverndar segir þetta aðallega konur í mikilli neyslu. Þá eru hlutfallslega fleiri tilkynningar vegna barna einstæðra mæðra en annarra hópa.



Í nýjum barnaverndarlögum sem tóku gildi árið 2002 var sett inn ákvæði sem kvað á um að heimilt væri að tilkynna um barnshafandi konur ef talið væri að ófædd börn þeirra væru í hættu. Áður en ákvæðið var sett inn var ekki hægt að tilkynna um vanrækslu eða hefja stuðningsaðgerðir fyrr en barnið var fætt. Steinunn Bergmann framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur segir að tilkynningum í tengslum við barnshafandi konur hafi fjölgað mikið milli ára. Árið 2004 voru tilkynningar þrjár, árið 2005 voru þær sex og í fyrra fjölgaði þeim mikið og voru alls tuttugu og tvær.



„Heilbrigðisstarfsmenn hafa áttað sig meira á tilkynningaskyldunni og láta okkur vita þannig að hægt sé að undirbúa að móðir þurfi verulegan stuðning varðandi fæðingu barnsins. Oft er um að ræða mæður í talsvert mikilli neyslu. Þá þarf að grípa til aðgerða til að reyna tryggja öryggi ófædds barns," segir Steinunn. Einnig geti verið tilvik þar sem þroskaskerðingu verðandi mæðra sé að ræða. Lögð sé áhersla á að stutt sé við þær í samstarfi við fjölskyldu og vini til að undirbúa fæðingu barnsins.



Þá eru tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur hlutfallslega fleiri vegna barna einstæðra mæðra en annarra hópa. Rannsóknir hafa sýnt að einstæðar mæður lenda meira í þeim aðstæðum en annar hópur. Steinunn segir einstæðar mæður viðkvæman hóp sem þurfi oft mikinn stuðning. Skýringarnar séu líklega þær að stuðningur stórfjölskyldunnar hefur minnkað með árunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×