Innlent

Bannað að spila bingó og fara á ball

Eftir klukkan þrjú í dag má fólk fara á listsýningar, í leikhús eða í bíó. Það má hins vegar ekki fara á ball né spila bingó.

Páskahátíðin er heilagasta hátíð kristinna manna en þá minnast þeir krossfestingu Krists og upprisu. Í lögum um helgidagafrið segir að óheimilt sé að að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar.

Samkvæmt þeim er bannað að halda skemmtanir eins og dansleiki á opinberum stöðum. Eins eru opinberar sýningar bannaðar sem og happdrætti, bingó og önnur skipulögð spilamennska. List- og leikhússýningar eru undanþegnar banninu og það sama má segja um kvikmyndasýningar og tónleikahald.

Þá mega smærri verslanir og veitingastaðir vera opnir eftir klukkan þrjú í dag . Lögunum er ætlað að tryggja frið til bænahalds og segir á lögregluvefnum að lögregla geri ekki athugasemdir við lágværa tónlist eða flutning sjónvarpsefnis á veitingastöðum þessa daga svo framarlega sem slíkt trufli ekki helgihald.

Ýmis hjátrú tengist páskum og er ein þeirra sú að á páskadagsmorgun dansi sólin af gleði nokkur augnablik. Á dagatölum eru þessir dagar oftast auðkenndir með rauðum lit og kemur það til af því að litur blóðsins var talin ágætis fjandafæla fyrr á öldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×