Innlent

Snjór fluttur til Ísafjarðar

Flytja þurfti snjó ofan af fjöllum niður í Ísafjarðarbæ til að unnt yrði að setja skíðaviku með árlegri sprettgöngu um götur bæjarins.

Skíðavikan á Ísafirði var sett að viðstöddu fjölmenni á Silfurtorgi í gær. Lúðrasveit tónlistaskólanns leiddi skrúðgöngu frá Ísafjarðarkirkju að torginu, þar sem Elvar Logi Leikari kómedíuleikhússins fór í gegnum ýmsa þætti sem skíðamenn þurfa að hafa í huga er þeir iðka íþróttina. Þá var hin árlega sprettganga Núps og sýndu gönguskíðamenn góða takta í brautinni.

Ísfirðingar hafa ekki farið varhluta af hlýju tíðarfari undanfarið og hefur snjó tekið upp í 100 metra hæð. Sökum snjóleysis í byggð þurfti því að flytja snjó í göngubrautina í miðbænum ofan af Breiðadalsheiði. Dagskrá skíðaviku er með fjölbreyttu snið í ár eins og undanfarin ár. Á Tungudal verða ýmsar uppákomur fyrir skíðamenn og gesti, sem og í nágrannabyggðum og fyrirhuguð er gönguskíðaferð í friðland Hornstranda. Farið verður að Látrum í Aðalvík og gengið til Hesteyrar, og eru margir sagðir horfa með hýrum augum til þeirrar ferðar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×