Innlent

Veðurblíða á skíðasvæðum og hálendinu

Hápunktur skíðavertíðarinnar hérlendis hefur í gegnum árin iðulega verið um páskana og nú ber svo við að helstu skíðasvæði landsins eru opin, þar á meðal Bláfjöll. Skíðasvæðið í Skálafelli er hins vegar lokað.

Í Bláfjöllum er ein stór lyfta opin í Kóngsgili og þrjár barnalyftur við Bláfjallaskála og þar verður hægt að skíða til klukkan 18. Þá er búið að leggja göngubraut. Ljósmyndari Fréttablaðsins, sem þar var á ferð laust fyrir hádegi, sagði að fáir væru að skíða þótt þar væri fínasta veður. Í brekkunum er harðfenni og fólki bent á að halda sig í troðnum skíðaleiðum. Skíðaleiga og veitingasala eru í Bláfjallaskála. Skíðasvæðið á Ísafirði verður opið til klukkan fimm í dag. Í Hlíðarfjalli á Akureyri verður einnig opið til fimm en þar var er hægur vindur í morgun og sjö gráðu frost. Skíðasvæðið í Oddsskarði er opið til fimm og svo aftur í kvöld frá klukkan 20 til 23 en þar er brettadagur. Allar lyftur eru opnar. Þar var smá snjókoma og blindað, hægur vindur, en færinu lýst sem flottu. Og loks fengum við þær fréttir úr Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum að þar væri geggjað veður, eins og það var orðað, sól og blíða. Þar væri fullt af fjallafólki og sleðamönnum á ferð til að njóta útivistar á hálendinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×