Innlent

Forsetinn heimsótti Harvard og MIT

Ólafur Ragnar Grímsson og Jacky O´Neill hjá Harvard-háskólanum.
Ólafur Ragnar Grímsson og Jacky O´Neill hjá Harvard-háskólanum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í gær gestur við Harvard-háskóla þar sem hann flutti fyrirlestur í boði hins virta prófessors Michaels Porter sem þekktur er fyrir rannsóknir sínar á samkeppnishæfni þjóða.

Í tilkynningu frá skrifstofu forsetans segir að stúdentar frá 50 löndum hafi hlýtt á fyrirlesturinn sem fjallaði um íslenskt viðskiptalíf og þróun þess. Auk þess tók forsetinn þátt í um fjögurra klukkustunda samræðum um árangur Íslendinga á undanförnum árum og tækifæri lands og þjóðar í framtíðinni. Fyrirlestur forsetans verður hluti af námsefni um Ísland sem Harvard Business School dreifir til um 100 háskóla um allan heim.

Í kjölfar fyrirlestrarins sat forsetinn kvöldverð í boði Michaels Porter ásamt ýmsum forystumönnum úr bandarísku viðskiptalífi.

Forsetinn heimótti í dag MIT-háskólann í Boston sem er einn helsti vísinda- og tækniháskóli Bandaríkjanna. Þar átti hann viðræður við forsvarsmenn háskólans og vísindamenn á sviði orku- og loftslagsmála. Þá átti Ólafur Ragnar ítarlegan fund með Jefferson Tester prófessor en hann er aðalhöfundur nýrrar skýrslu um jarðhita í Bandaríkjunum og mögulega nýtingu hans sem vakið hefur mikla athygli.

Með Ólafi Ragnari í för í heimsókninni til MIT voru Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, og Ágúst Valfells, forstöðumaður Orkurannsóknaseturs háskólans. Þau kynntu nýjan samstarfssamning við MIT sem veitir íslenskum fyrirtækjum tækifæri til að nýta sér sérþekkingu og sérfræðinga MIT á ýmsum sviðum. Það er Háskólinn í Reykjavík sem sér um framkvæmd hans í umboði Viðskiptaráðs og Samtaka iðnaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×