Innlent

Hafa játað á sig árás á unglinga í Breiðholti

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi fjögur ungmenni, sem réðust á sextán ára dreng og fjórtán ára vinkonu hans í Breiðholti um hádegisbilið í gær, þar sem þau biðu eftir strætó. Þau játuðu á sig árásina.

Ungmennin, þrír karlmenn og ein kona, komu aðvífandi á bíl, stukku út úr honum og réðust umsvifalaust á unglingana. Fjöldi ökumanna varð vitni að árásinni en aðhafðist ekkert. Árásarmennirnir slógu drenginn í andlitið og spörkuðu ítrekað í hann þar sem hann lá í götunni. Stúlkan í hópnum réðst að vinkonu drengsins hárreytti hana og hrinti.

Engin tengsl munu vera á milli árásarmannanna og fórnarlambanna en fórnarlömbin eru búsett á landsbyggðinni. Pilturinn leitaði læknis á slysadeild en reyndist óbrotinn. Hann er hins vegar lemstraður og mikið marinn.

Að sögn lögreglu hefur hann lagt fram kæru. Við yfirheyrslur játuðu árásarmennirnir á sig verknaðinn en að minnsta kosti einn þeirra hefur áður komist í kast við lögin vegna ofbeldisverka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×