Innlent

Horfur á að maður lifi af hnífstunguárás

MYND/GVA

Horfur eru á að karlmaður á fimmtugsaldri, sem var stunginn lífshættulegri stungu í brjóstið með eldhúshnífi á heimili við Hátún í Reykjavík í gærkvöldi, lifi árásina af.

Fimm menn voru þar saman komnir og sátu að sumbli þegar einn þeirra brá sér fram í eldhús, sótti hníf og stakk manninn án frekari orðalenginga. Hinir mennirnir hringdu þegar á lögreglu sem sendi menn með hlífðarbúnað á vettvang þar sem ekki lá fyrir hvort æðið væri runnið af árásarmanninum.

Maðurinn sem var stunginn var fluttur í skyndingu á slysadeild þar sem læknum tókst að stöðva blæðingar en hann hafði misst mikið blóð þegar þangað var komið. Líðan hans er þannig að hann er að líkindum úr lífshættu.

Mennirnir fjórir voru handteknir og gista fangageymslur. Einn þeirra hefur þegar viðurkennt verknaðinn en tildrög eru óljós. Þeir verða yfirheyrðir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×