Innlent

Tveir ákærðir vegna Eskifjarðarslyss í fyrrasumar

Björn Gíslason skrifar

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur tveimur mönnum fyrir Héraðsdómi Austurlands vegna klórgasslyssins sem varð á Eskifirði í lok júní í fyrra.

Mönnunum tveimur, sem eru starfsmenn Olís, er gefið að sök almannahættubrot, öðrum fyrir að hafa afgreitt í bíltank þúsund lítra af ediksýru í stað þúsund lítra af klórlausn sem nota átti í sundlaug Eskifjarðar, og hinum fyrir að hafa flutt takinn að sundlauginni og dælt um 200 lítrum af ediksýrunni yfir í klórtank sundlaugarinnar þannig að sýran blandaðist 300 lítrum af klórlausn og það myndaðist klórgas.

Klórgasið er hættulegt við innöndun en það barst yfir sundlaugarsvæðið og urðu 45 manns fyrir eituráhrifum af gasinu. Þau lýstu sér í sviða í augum, uppköstum og ertingu og verkjum í öndunarfærum. Segir í ákærunni að með athæfinu hafi auk þess skapast hætta á að fjöldi fólks, sem var á sundlaugarsvæðinu, yrði fyrir eituráhrifum gassins.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Austurlands í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×