Innlent

Verðlækkanir í lágvöruverslunum í samræmi við skattalækkanir

Verðlækkanir í lágvöruverðsverslunarkeðjum í tengslum við lækkanir á virðisaukaskatti og vörugjöldum þann 1. mars voru í samræmi við útreikninga Hagstofunnar á tilætluðum áhrifum aðgerðanna. Þetta leiða fyrstu niðurstöður úr viðamiklum verðmælingum verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum á tímabilinu í ljós.

Fram kemur í frétt á vef ASÍ að verðlagseftirlitið hafi hafið verðmælingar vegna þessa í desember í fyrra en frá þeim tíma og til febrúar á þessu ári hækkaði verðlag í lágvöruverðsverslunum á bilinu 0,2 - 2,2 prósent. Vegin verðhækkun á því tímabili var mest í verslunum Krónunnar en minnst í verslunum Bónuss.

Þegar skoðaðar eru verðbreytingar á tímabilinu frá febrúar til mars, þegar opinberar álögur á matvörur voru lækkaðar, kemur hins vegar í ljós að verð í lágvöruverðsverslunum lækkaði á bilinu 6,4 - 11 prósent og þar var vegin verðlækkun minnst í verslunum Nettó en mest í verslunum Krónunnar.

Hagstofa Íslands áætlaði í upphafi árs að lækkun á virðisaukaskatti myndi lækka verð á mat og drykkjarvörum um 7,4 prósent og niðurfelling á vörugjöldum um 1,3 prósent til viðbótar. Lækkun á virðisaukaskatti átti að skila sér í vöruverði til neytenda þegar breytingin tók gildi en lækkanir vegna niðurfellingar á vörugjöldum geta hins vegar tekið 1-2 mánuði að skila sér að fullu út í vöruverð að því er ASÍ greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×