Innlent

Lögðu hald á 500 karton af sígarettum

Tollverðir og lögreglumenn handtóku þrjá menn þegar þeir voru að bera tóbak frá borði úr rússneskum togara í Hafnarfjarðarhöfn upp úr miðnætti. Lagt var hald á að minnsta kosti fimm hundruð karton af sígarettum, bæði í bíl á bryggjunni og um borð í togaranum.

Tveir hinna handteknu eru skipverjar á togaranum en sá þriðji er Rússi, búsettur hér á landi. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hefur hann áður verið viðriðinn ámóta mál hér á landi.

Verið er að yfirheyra mennina en um nokkurt skeið hefur leikið grunur á að tóbaki og jafnvel áfengi sé smyglað hingað til lands með skipulögðum hætti. Grunur leikur meðal annars á að stórsmygl með rússnesku skipi, sem upp um komst á Húsavík fyrir rúmu ári, hafi verið angi af því, en nægilegar sannanir hefur skort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×