Innlent

Nærri 600 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa

MYND/GVA

Alls vantar 582 hjúkrunarfræðinga til að leysa úr þeim skorti sem nú er á íslenskum stofnunum samkvæmt nýrri skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem kynnt verður síðar í dag. Alls er um að ræða 445 stöðugildi sem ekki eru mönnuð.

Liðlega 3100 hjúkrunarfræðingar eru á vinnualdri á Íslandi í dag en af þeim starfa tæplega 2700 á íslenskum stofnunum samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að hjúkrunarforstjórar meti það svo að stöðugildum innan stéttarinnar verði að fjölga um 2,2 prósent á ári en fjölgun námsplássa í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri í samtals 153 nægi ekki til að mæta þessum vexti.

Telur félagið að árleg nýliðun í stéttinni aðeins nema um 40 stöðugildum en þörf sé hins vegar á fólki í 47,6 stöðugildi. Því sé fyrirsjáanlegt að skortur á hjúkrunarfræðingum aukist fram til ársins 2015 um 12,8 stöðugildi árlega. Það ár muni að óbreyttu vanta 749 hjúkrunarfræðinga til starfa í alls 543 stöðugildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×