Innlent

Flutningar yfir Breiðafjörð stóraukast með nýrri ferju

Flutningar sjóleiðis yfir Breiðafjörð hafa aukist langt umfram væntingar eftir að ný ferja hóf siglingar á leiðinni fyrir tæpu ári.

Skipið, sem heitir Baldur eins og fyrri ferjur, er mun stærra en fyrri ferjan og tekur allt að 300 farþega. Þá getur það tekið 40 fólksbíla ef engir flutningabílar eru með. Farþegafjöldinn hefur aukist um 35 prósent, fólksbílum hefur fjölgað um 57 prósent og flutningabílum um 60 prósent.

Að sögn Péturs Ágústssonar í Sæferðum, sem eiga ferjuna en gera hana út með rekstrarsamningi við Vegagerðina, vekur athygli að aukningin er hlutfallslega ámóta mikil yfir vetrarmánuðina og var yfir sumarmánuðina í fyrra.

Siglingatíminn yfir fjörðinn til Brjánslækjar, án viðkomu í Flatey, er nú rúmar tvær klukkustundir en var tæpar þrjár með eldri ferjunni. Þá verður hafnaraðstaðan bætt í Brjánslæk í sumar og brýnt er orðið að lagfæra bryggjuna í Flatey, en aðstaða er góð i Stykkishólmi. Pétur sagðist horfa fram á mikla flutninga í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×