Innlent

Hækkun olíuverðs hefur ekki skilað sér enn hér á landi

Olíuverð hélt áfram að hækka á heimsmarkaði í gær og væri bensínverð orðið nokkrum krónum hærra hér á landi en raunin er, ef íslensku olíufélögin endurspegluðu sveiflur á heimsmarkaði, eins og dönsku olíufélögin gera til dæmis.

Tunnan fór upp í 66 dollara á helstu mörkuðum í gær og hefur ekki verið jafbdýr um nokkurt skeið. Fastlega má búast við að þetta fari að hafa áhrif á bensínverð hér á landi því miðað við gengi núna og síðast þegar olíuverð náði þessum hæðum á heimsmarkaði sýnist að verð hér væri nær 120 krónum fyrir lítrann í sjálfsafgreiðslu en það er rúmar 115.

Hækkun á heimsmarkaði er meðal annars rakin til aukinnar spennu vegna gíslatökunnar í Íran en fleira kemur til. Þegar Hugo Chavez, forseti Venesúela, þjóðnýtti olíuvinnsluna þar í landi nýverið rak hann fjölda stjórnenda olíuvinnslustöðvanna og hefur stórlega dregið úr afköstum í kjölfar þess.

Loks blasir við að stöðva þurfi rekstur þriggja stórra olíuhreinsistöðva í Bandaríkjunum í allt að þrjá mánuði þar sem komið er að hreinsun og viðhaldi á þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×