Innlent

Forsetafrúin gekkst undir mikla aðgerð á þriðjudagskvöld

Dorrit Moussaieff forsetafrú slasaðist nokkuð alvarlega á skíðum í Aspen í Bandaríkjunum á þriðjudag. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands fór til Bandaríkjanna í gærdag og hefur fylgst náið með framvindu mála, en hann hittir eiginkonu sína í kvöld.

Dorrit var búin að vera í nokkra daga í einkaerindum í Bandaríkjunum þegar slysið átti sér stað á þriðjudag. Að sögn Örnólfs Thorssonar forsetaritara lærbrotnaði forsetafrúin og brákaði nokkur bein og gekkst undir nokkuð stóra aðgerð á sjúkrahúsi í Aspen á þriðjudagskvöld.

Steingrímur Ólafsson greindi fyrst frá slysinu á bloggsíðu sinni í dag. Fyrirhugað var að forsetafrúin hitti Ólaf Ragnar í tengslum við áður ákveðna för hans til Bandaríkjanna, en forsetin flaug til Bandaríkjanna seinni partinn í gær. Örnólfur segir að líðan Dorritar sé eftir atvikum góð og að forsetinn hafi fylgst náið með líðan hennar.

Forsetinn stytti dagskrá heimsóknar sinnar til Washington og breytti öðrum liðum heimsóknarinnar svo hann geti flogið til Aspen á fund Dorritar í kvöld. En forsetinn mun svo halda áfram ferð sinni um Ohio, Columbia og Boston á sunnudag.

Örnólfur sagði að ekki væri ljóst á þessari stundu hvenær forsetafrúin kæmi heim til Íslands, en vonast væri til að það gæti orðið sem fyrst. Það væri lækna í Bandaríkjunum að ákveða hvenær forsetafrúin telst vera ferðafær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×