Innlent

Siv skipar nefnd um heildarendurskoðun laga um málefni aldraðra

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að annast heildarendurskoðun á lögum um málefni aldraðra.. Skipun nefndarinnar er í samræmi við stefnumótun ráðherra um uppbyggingu öldrunarþjónustunnarog í samræmi við ábendingar hagsmunaaðila, svo sem Landssambands eldri borgara um að eðlilegt sé að fram fari heildarendurskoðun á lögunum, að því er segir í fréttatilkynningu frá ráðherra.

Í skipunarbréfi nefndarinnar er vísað til þess að á síðustu árum hafi komið fram ákveðnar kröfur um heildarendurskoðun laga um málefni aldraðra. Meðal annars hafi verið fundið að því að í lögunum sé of mikil áhersla lögð á stofnanaþjónustu við aldraða, þau endurspegli ekki nógu vel markmiðið um að styðja aldraða sem lengst til sjálfstæðrar búsetu og enn fremur að ekki sé nógu skýrt kveðið á um ábyrgð og verkaskiptingu varðandi ýmis verkefni innan málaflokksins. Einnig hafi verið haldið fram því sjónarmiði að sérstök lög um málefni aldraðra séu óþörf og að einungis eigi að fjalla um málaflokkinn í almennum lögum. Nefndinni er falið að takast á við verkefni sitt með fyrrnefnd atriði að leiðarljósi.

Nefndin er þannig skipuð:

Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, formaður,

Vilborg Ingólfsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,

Vilborg Þ. Hauksdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,

Óskar Páll Óskarsson, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu,

Jón Snædal, öldrunarlæknir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi,

Matthías Halldórsson, landlæknir,

Margrét Margeirsdóttir, fulltrúi Landssambands eldri borgara,

Kristbjörg Stephensen, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og

Hallveig Thordarson, fulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins.

Starfsmaður nefndarinnar er Margrét Erlendsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eigi síðar en 1. desember 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×