Innlent

Ríkisstjórnin skipar Vestfjarðanefnd

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að skipa nefnd til að vinna með Ísfirðingum að hugmyndum þeirra til minnka samdrátt í atvinnumálum vestra. Geir H. Haarde forsætisráðherra segir vanda Vestfirðinga m.a. felast í því að Vestfirðingar hafi misst af uppganginum sem tengist stóriðjunni og að aflaheimildir hafi horfið frá svæðinu.

Ísfirðingar hafa kallað eftir aðgerðum að hálfu stjórnvalda vegna mikils samdráttar í atvinnumálum á undanförnum árum. Umræðan vestra varð enn harðari eftir að Marel tilkynnti að fyrirtækið ætlaði að hætta allri starfsemi á Ísafirði, sem þýðir að tuttugu sérhæfð tæknistörf hverfa úr bænum.

Fjölmennur borgarafundur á sunnudag, krafðist þess að stjórnvöld létu málið til sín taka og að þingmenn allra flokka sameinuðust um aðgerðir. Ríkisstjórnin fundaði um málið í morgun. Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin muni setja saman vinnuhóp með fulltrúum ráðuneyta og Ísfirðing til að fara yfir hvernig ríkisstjórnin geti komið að málum.

"Það liggur ekkert fyrir ennþá hvernig það yrði. En Vestfirðingar eru sjálfir með ákveðnar hugmyndir um það og það er rétt að fara vel og vandlega yfir þær hugmyndir og sjá hvort eitthvað er hægt að gera," segir forsætisráðherra. Ástandið fyrir vestan sé alvarlegt, þótt það sé ekki nýtt að þar séu erfiðleikar í atvinnulífi.

Fyrir Alþingi liggja frumvörp sem miða að því að fá kaupskipaútgerðir til að skrá skip sín á Íslandi að nýju, með því að bjóða þeim skattaívilnanir. Geir telur erfitt að grípa til einhverra slíkra aðgerða til að skjóta stoðum undir atvinnulíf fyrir vestan.

Forsætisráðherra segist hafa fundað með bæjarstjóranum á Ísafirði og í febrúar hafi hann, iðanaðarráðherra og fleiri ráðherrar átt ágætan fund með Vestfirðingum.

"Þeir hafa farið á mis við uppbygginguna sem tengst hefur stóriðju t.d. á Austurlandi og hér í nágrenni höfuðborgarinnar. Það er ein skýring. Síðan hafa náttúrlega aflaheimildir flust frá Vestfjörðum. Nýjasta vandamálið er svo að hátæknifyrirtækið Marel hyggst loka sinni starfsstöð þar. En þar hefur veruð mikill vaxtabroddur í hátæknistarfsemi sem á rætur að rekja langt aftur í tímann á Ísafirði, þar sem menn hafa verið mjög framsýnir og duglegir í því máli," segir Geir H Haarde forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×