Innlent

Segir rökstuðning ráðherra fyrirslátt

MYND/Valgarður

Arna Schram, formaður Blaðamannfélags Íslands, segir rökstuðning menntamálaráðherra fyrir því að virða að vettugi tilnefningar félagsins í sérfræðingaráð Norræna blaðamannaskólans og skipa Ólaf Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, í ráðið, fyrirslátt.

Á vef Blaðamannafélagsins, press.is, segir að ráðherra hafi hafnað fulltrúa BÍ, Birgi Guðmundssyni, á þeirri forsendu að slíkt skapaði hagmunaárekstur þar sem hann væri háskólakennari við Háskólann á Akureyri. Til stæði að færa hluta af starfsemi Norræna blaðamannaháskólans til háskóla á Norðurlöndum og með því að hafa háskólamann í sérfræðinganefnd blaðamannaskólans gæti orðið hagsmunaárekstur.

Hins vegar kemur í ljós að Ólafur Stephensen er í þriggja manna stjórn meistaranáms í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Bent er á að annars staðar á Norðurlöndunum hafi verið farið að tilnefningum þarlendra blaðamannafélaga í sérfræðinganefndina.

„Þetta staðfestir að ekkert mark er takandi á rökum menntamálaráðherra fyrir því að hunsa tilnefningar BÍ í sérfræðinganefnd NJC. Skýringarnar voru eftirá skýringar, eins og við sögðum alltaf.. Aldrei var ætlunin að fara eftir tilnefningum Blaðamannafélagsins," segir Arna Schram á vef Blaðamannafélagsins.

Þá segir Arna enn fremur: „Ef ráðherrann ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér hlýtur hann að endurskipa í sérfræðinganefnd NJC eða krefjast þess að Ólafur Stephensen segi sig úr stjórn námsins í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. Ég tek það fram að þetta hefur ekkert með hæfni Ólafs að gera, en það sama hlýtur að ganga yfir þá Ólaf og Birgi Guðmundsson.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×