Innlent

Loðnan mokveiðist

Mokveiði er hjá loðnuskipunum suður af Snæfellsnesi og eru mörg þeirra að slá botn í vertíðina í ár með því að klára kvóta sína í dag.

Aðeins fjögur skip eru enn á miðunum og þau eru að fylla sig, en hin eru flest á leið til löndunar með fullfermi, og er landað hringinn í kringum landið. Þetta er síðast veiðiferð hjá mörgum þeirra, þar sem kvóti þeirra er búinn, en hann var óvenju lítill í ár, eða aðeins 300 þúsund tonn. Til samanburðar hefur hann oftar en einu sinni verið yfir milljón tonn.

Að sögn sjómanna eru margar torfur á Faxaflóanum og loðnan hrognafull og fyrsta flokks hráefni. Þeim svíður því að þurfa að hætta í miðri veislunni, eins og þeir orða það. Ljóst er að aðeins örfá skip halda eitthvað áfram eftir þennan lokahvell og innan tíðar fer loðnan fyrir Nesið og inn á Breiðafjörð, þar sem hún hrygnir og drepst. Það vegur nokkuð á móti óvenju litlum kvóta að afurðaverð er óvenju hátt bæði á frystri loðnu og hrognum til manneldis og á mjöli og lýsi til dýrafóðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×