Innlent

Stjórnin vildi skýrari línur milli Baugs og Gaums

Frá réttarhöldunum.
Frá réttarhöldunum. MYND/Lillý

Hans C. Hustad, stjórnarmaður í Baugi, sagði umræður hafa farið fram í stjórn Baugs vorið 2002 um að draga þyrfti skýrari línur milli Baugs og Gaums. Hann vissi af lánveitingum til Gaums en þekkti þær þó ekki í smáatriðum enda hans mat að reksturinn ætti að vera í höndum stjórnenda fyrirtækisins. Hans kom inn í stjórnina árið 1999 þegar Reithan samsteypan í Noregi keypti 20% hlut í Baugi.

Hans var yfirheyrður í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann sagði Gaum í mörgum tilvikum hafa farið á undan Baugi í áhættufjárfestingar og Baug hafa hagnast af því. Þannig hafi Gaumur að ákveðnu leyti axlað viðskiptalega áhættu fyrir Baug.

Hans sagðist hafa verið kunnugt um kaupréttarákvæði í samningum þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Óskars Magnússonar en þó ekki fyrr en eftir að hann kom inn í stjórnina. Hann mundi þó ekki nákvæmlega hvaða ár það hafi verið.

Unnur Sigurðardóttir kom á eftir Hans fyrir réttinn í morgun. Unnur var ritari framkvæmdastjórnar Baugs á árunum 1998 til 2002. Unnur starfaði einnig fyrir Gaum á þessum tíma.

Kristín Jóhannesdóttir, systir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, mætti svo eftir hádegi í Héraðsdóm. Kristín tók við starfi framkvæmdastjóra fjárfestingarfélagsins Gaums haustið 1999. Stærstu eignir Gaums voru þá eignarhlutur í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og í Baugi. Hún sagði Gaum hafa greitt visareikninga fyrir Jón Gerald Sullenberger sem voru tilkomnir vegna reksturs Thee Viking. Hún sagði ljóst að Gaumur hefði átt að fá eignarhlut í bátnum vegna þátttöku í kaupunum en hún hafi sjálf ekki tekið þátt í þeim styr sem var um hann. Jóhannes Jónsson, faðir hennar, og Jón Ásgeir hefðu séð um bátamálin.

Yfirheyrslum lauk um þrjú leytið eða klukkutíma á undan áætlun. Arngrímur Ísberg, dómari í málinu, skaut því þó að settum ríkissaksóknara að engin inneign myndaðist á viðskiptareikningi setts ríkissaksóknara við það.

Á morgun mæta þau Linda Jóhannsdóttir og Þórður Bogason í yfirheyrslur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×