Innlent

Framtíð starfmanna Marels á Ísafirði óljós

Framtíð starfsmanna Marels á Ísafirði er óljós eftir að fyrirtækið tilkynnti fyrir helgi að það myndi hætta allri starfsemi í bænum. Tuttugu manns missa vinnuna og ljóst að ekki fá allir atvinnu við sitt hæfi á Ísafirði.

Bæjaryfirvöld á Ísafirði segja það hafa komið algerlega á óvart þegar Marel tilkynnti fyrirhugða lokun starfstöðvarinnar í bænum. Aðeins þrjú ár eru síðan Marel hóf þar rekstur þegar það keypti fyrirtækið Póls.

Á Ísafirði hefur Marel þróað og framleitt hraðpökkunartæki og einnig skipavogir. Starfsmennirnir eru uggandi um sína framtíð. Þau störf sem þeir hafa unnið hjá Marel eru sérhæfð og ljóst að ekki munu allir fá vinnu við sitt hæfi í byggðarlaginu.

Marel segir lokun starfsstöðvarinnar lið í endurskipulagningu fyrirtækisins um allan heim. Einingin á Ísafirði sé orðin of lítil og óhagstæð. Mögulegt sé að einhverjum Ísfirðingum verði boðið starf í höfuðstöðvum Marels í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×