Innlent

Saka viðskiptaráðherra um að ganga erinda tryggingafélaga

Forsvarsmenn Læknafélags Íslands saka viðskiptaráðherra og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um að ganga erinda tryggingafélaganna. Formaður félagsins segir það sína persónulegu skoðun að verið sé að lögfesta mannréttindabrot. Samtök fjármálafyrirtækja saka læknafélagið um fordóma. Viðskiptaráðherra segist ekki trúa því að Læknafélagið standi að baki fullyrðingum framkvæmdastjóra félagsins.

Samtök fjármálafyrirtækja saka læknafélagið um fordóma í garð vátryggingastarfsemi. Nauðsynlegt hafi verið að skýra lög um vátryggingar eftir að í ljós kom að Persónuvernd og Fjármálaeftirlitið túlkuðu hvor með sínum hætti heimild tryggingafélaga til að afla upplýsinga um heilsufar foreldra eða systkina umsækjanda um líf og sjúkdómatryggingar.

Læknafélagið segir alveg skýrt að þarna sé verið að safna persónuupplýsingum án upplýsts samþykkis, og horfa til viðskiptasjónarmiða eingöngu á kostnað persónuverndar.

 

Meirihluti nefndarinnar lagði ennfremur til samkvæmt tillögu Persónuverndar að heimilt væri að krefjast upplýsinga úr erfðarannsókn. Læknafélagið brást ókvæða við og sagði að með þessu væri reynt að skipta þjóðinni í hinn hreina kynstofn annars vegar og óhreina hins vegar.

Tryggingafélögin segjast ekki hafa ekki óskað eftir að lögin veittu heimild til ð krafist yrði upplýsinga úr erfðarannsóknum og taka undir að þær gætu mismunað tryggingatökum á ósanngjarnan og ógeðfelldan hátt. Jón Sigurðsson segir að þarna sé um að ræða breytingartillögur nefndarinnar en ekki sé búið að læsa frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×