Innlent

Brim kaupir togara

Brim hefur gengið frá kaupum á frystitogaranum Kleifabergi frá Þormóði ramma. Áhöfninni er boðið að starfa hjá nýjum eigendum í eitt ár.

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims er búinn að kaupa frystitogarann Kleifaberg ÓF-2 af Þormóði ramma. Skipverjum var kunngert þetta í gærkvöld en skipið hefur gert út frá Ólafsfirði. Guðmundur Kristjánsson staðfesti kaupin í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 nú í morgun.

Hann segir að Brim hafi lengi leitað að frystitogara. Enginn kvóti fylgi en áhöfninni stendur til boða að starfa á skipinu í eitt ár að minnsta kosti. Áhöfnin er 27 manns og verður skipið afhent í lok næsta mánaðar.

 

Kleifabergið er smíðað 1974 í Póllandi. Það er tæpar 900 brúttórúmlestir og 63 metrar.

Þormóður rammi hefur einnig verið með annan frystitogara, Mánabergið, á sölulista og var í fréttum fyrir skemmstu eftir að útgerðin sagði skipstjórum upp. Guðmundur segir þá Siglfirðinga og Ólafsfirðinga góða útgerðarmenn. Hann útilokar ekki frekari skipakaup.

 

Þormóður rammi - Sæberg segir í tilkynningu á heimasíðu félagsins að vonast sé til að með þessari ráðstöfun sé óvissu eytt um atvinnuöryggi skipverja á Kleifabergi ÓF-2, fram að komu nýs skips sem verið sé að smíða í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×