Innlent

Forsætisráðherra vill afnema tekjuskatt af söluhagnaði

Forsætisráðherra telur eðlilegt að afnema tekjuskatt af söluhagnaði á hlutabréfum. Þá vill ráðherra afnema ýmsa smærri skatta sem innheimtir eru með mikilli fyrirhöfn.

Geir H Haarde forsætisaráðherra boðaði tiltekt í skattkerfinu á viðskiptaþingi í gær. Eitt af því sem hann vill skoða er skattlagning söluhagnaðar hlutabréfa. Í dag ber að greiða tekjuskatt af slíkum hagnaði, en ekki þarf að greiða slíkan skatt af arði af hlutabréfum.Hins vegar eru lögin þannig að fyrirtæki geta í raun frestað þessum skarttgreiðslum óendanlega, með því að nota söluhagnaðinn til endurfjárfestinga.

"Að undanförnu hafa ýmsir aðilar brugðið á það ráð að stofna sérstök eignarhaldsfélög í löndum þar sem slík skattlagning er ekki fyrir hendi, til dæmis í Hollandi, í þeim eina tilgangi að komast hjá skattgreiðslum," sagði forsætisráðherra.

Geir sagði að þessi skattur væri heldur ekki til staðar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og virtist víða annars staðar vera á undanhaldi.

"Ég tel eðlilegt að breyta ákvæðum okkar laga og undanþiggja þessa skattlagningu hér á landi með sama hætti og í okkar nágrannalöndum að uppfylltum hliðstæðum skilyrðum og þar gilda," sagði forsætisráðherra.

Þetta myndi ekki hafa í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð að mati Geirs. Þvert á móti mætti búast við hinu gagnstæða þar sem starfsemin færðist þá aftur til Íslands. Þá sagði Geir að hann teldi eðlilegt að leggja af ýmsa smærri skatta sem dýrt og flókið væri að innheimta, án þess að tilgreina hvaða skattar það væru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×