Innlent

Högnuðust um 650 milljónir á dag

Stóru bankarnir þrír högnuðust um 650 milljónir króna hvern einasta virkan dag í fyrra sem nægir til að kaupa upp allt íbúðarhúsnæði á Akureyri á einu bretti. Hluthafarnir fá um þrjátíu milljarða í arð af hlutafé sínu í bönkunum inn á reikninga sína í mars.

Kaupþing banki græddi um 85 milljarða, 26 milljörðum meira en árið áður. Glitnir græddi rúma 38 milljarða, 19 milljörðum meira en árið áður, og Landsbankinn græddi 40 milljarða, 60 prósentum meira en árið áður. Hagnaður bankanna þriggja nemur því um 164 milljörðum króna í fyrra og var það metafkoma hjá öllum.

Til samanburðar má geta þess að heildarkostnaður við stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnúkavirkjun, er tæpir hundrað milljarðar, eða sem svarar til gróða bankanna á aðeins átta til níu mánuðum. Ársgróðinn færi líka langt með að endurnýja fiskiskipaflotann eða til að byggja um 5.500 nýjar fjögurra herbergja íbúðir á 30 milljónir stykkið. Það er hátt upp í íbúðafjöldann á Akureyri.

Eignir bankanna aukast líka hratt og nema nú 28 til 29 milljónum á hvert mannsbarn í landinu. Kaupþing banki er langstærsti bankinn og stærsta fyrirtæki landsins. Markaðsvirði hans er álíka og Landsbankans og Glitnis til samans. Allar þessar tölur eiga svo eftir að hækka þegar Straumur Burðarás og Sparisjóðirnir birta sínar hagnaðartölur á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×