Innlent

Íslendingurinn ekki með gegn Íslendingum

Hans Óttar Lindberg, Íslendingurinn í danska landsliðinu í handknattleik, og leikstjórnandinn Claus Möller Jakobsen verða ekki í danska landsliðshópnum í kvöld sem mætir Íslendingum í Hamborg.

Aðeins má vera með 14 leikmenn á skýrslu fyrir leikinn og eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstsins léku Hans og Jakobsen ekki nógu vel í síðasta leik gegn Tékkum til þess að hljóta náð fyrir augum Ulriks Wilbeks, þjálfara danska liðsins.

Báðir voru í byrjunarliði Danmerkur gegn Tékkum en voru teknir út af eftir röð mistaka. Mun Hans, sem leikur í hægra horninu, meðal annars hafa klúðrað fjórum skotum í röð, þar á meðal einn á móti markmanni, og þá þótti Jakobsen ekki stjórna sóknarleik danska liðsins að nógu mikilli festu.

Hans Óttar á íslenska foreldra en hann hefur alla tíð búið í Danmörku og hefur verið viðloðandi danska landsliðið undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×